Sérstök sögusýning verður opnuð í tilefni af sjötíu ára afmæli Knattspyrnufélagsins Þróttur sem fagnað er um þessar mundir.
Félagið var stofnað í bragga við Ægisíðu vestur í bæ, þann 5. ágúst 1949. Félagið hefur staðið fyrir margs konar viðburðum á afmælisárinu og á morgun, laugardaginn 28. september, verður opnuð sérstök sögusýning í félagsheimili Þróttar í Laugardal.
Sigurlaugur Ingólfsson, sem fer fyrir minja- og sögunefnd félagsins, segir að undirbúningur að sýningunni hafi staðið frá því snemma á þessu ári. „Félagar hafa verið duglegir að gefa til félagsins, eða lána, gripi, myndir og annað sem tengist sögu okkar,“ segir Sigurlaugur.
Gunnar Baldursson, leikmyndateiknari hjá Sjónvarpinu til margra ára, á heiðurinn á útliti sýningarinnar og má segja að gestir gangi í gegnum eins konar „minningaskóg“ af uppblásnum myndum úr starfi félagsins.
Sýningin opnar klukkan 16 og verður boðið upp á kaffi og kleinur í tilefni dagsins. Gestir geta svo skoðað sýninguna næstu tvær vikur milli klukkan 11 og 17.

