Skoðun

Áunnið traust

Sighvatur Arnmundsson skrifar
Illa hefur gengið að endurheimta traust á stjórnmálum og Alþingi á þeim tæpu ellefu árum sem liðin eru frá hruninu. Þetta ætti að vera alþingismönnum ofarlega í huga í dag þegar þeir koma til setningar 150. löggjafarþingsins.

Samkvæmt könnun Gallup sem gerð var í febrúar síðastliðnum bera aðeins rúm 18 prósent mikið traust til Alþingis. Á árunum fyrir hrun var traustið yfirleitt í kringum 40 prósent en féll að vísu niður í 29 prósent árið 2007. Svo virtist sem hlutirnir væru á réttri leið og var traustið komið á sama stað og 2007 í mælingu síðasta árs. Klaustursmálið og eftirmálar þess gerðu hins vegar út um þær vonir að hlutirnir væru að þróast í rétta átt.

Því þingi sem lauk formlega í byrjun síðustu viku verður minnst fyrir umræður um þriðja orkupakkann. Alls var rætt um málið í þingsal í rúmar 147 klukkustundir, en það eru tæp 17 prósent alls ræðutíma þingsins, og ekkert mál í allri þingsögunni hefur verið rætt lengur. Ekki skal gert lítið úr mikilvægi málsins en það er samt í engu samræmi við allan þann tíma sem fór í umræðurnar. Staðan var þannig um tíma að Alþingi var í raun óstarfhæft og lét þingforseti meðal annars þau orð falla að völdum hafi verið rænt af Miðflokksmönnum.

Ef takast á að endurvekja traust almennings á Alþingi sem stofnun væri ekki úr vegi að dusta rykið af rúmlega sex ára gamalli skýrslu sem þingið lét Félagsvísindastofnun gera. Þar var rýnt í ástæður lítils trausts til Alþingis. Helstu niðurstöðurnar fyrir vantraustinu reyndust vera samskiptamáti og framkoma þingmanna, vinnulag á þingi og ómálefnaleg umræða. Þessu er öllu hægt að breyta ef vilji er fyrir hendi en því miður hefur lítið áunnist á þeim árum sem liðin eru. Málþóf eru enn alltof tíð, virðing fyrir pólitískum andstæðingum er oft á tíðum lítil sem engin og það heyrir til algerra undantekninga að þingmenn taki ábyrgð á mistökum sínum eða viðurkenni þau. Þá þarf orðræðan, sem einkennist oft af miklum gífuryrðum, að breytast.

Það er hættulegt til lengri tíma í lýðræðisríki að almenningur treysti ekki grunnstofnunum lýðræðisins. Alþingi fer ekki bara með löggjafar- og fjárveitingarvaldið heldur gegnir einnig mikilvægu eftirlitshlutverki gagnvart framkvæmdarvaldinu. Á Íslandi hefur verið þingræði frá árinu 1904 en það grundvallast á þeirri reglu að ríkisstjórn sitji í skjóli meirihluta þings. Veruleikinn er hins vegar sá að þingið stendur veikt gagnvart þeirri ríkisstjórn sem situr á hverjum tíma. Það er þess vegna jákvætt skref að í fjárlagafrumvarpinu sé gert ráð fyrir bættri aðstoð við þingmenn og þingflokka sem og eflingu sérfræðiaðstoðar við þingnefndir.

Þingmenn vita það jafn vel og aðrir að traust er áunnið. Traust á Alþingi verður ekki aukið á einum degi heldur þurfa þingmenn að sýna vilja í verki til lengri tíma. Einhvers staðar þarf að hefja þá vegferð. Dagurinn í dag er tilvalinn til þess.




Skoðun

Sjá meira


×