UFC er með bardagakvöld í Vancouver í Kanada í nótt. Þeir Donald Cerrone og Justin Gaethje mætast í aðalbardaga kvöldsins en það þarf ekki annað en að nefna þessa menn á nafn til að gera bardagaaðdáendur spennta.
Þeir Cerrone og Gaethje eru báðir þekktir fyrir að vera miklir skemmtikraftar – innan sem utan búrsins. Cerrone er fyrir löngu orðinn goðsögn fyrir að vera alltaf til í að berjast og fyrir skemmtilegt lífsviðhorf. Enginn hefur klárað fleiri bardaga í sögu UFC en Cerrone (16 bardagar) og hefur enginn fengið fleiri frammistöðubónusa en Cerrone í UFC.
Justin Gaethje er bara búinn með fimm bardaga í UFC en áður en hann kom í UFC var hann léttvigtarmeistari World Series of Fighting. Allir bardagar hans hafa verið skemmtilegur enda hugsar hann um lítið annað en að sækja. Vörnin er ekki ofarlega í forgangi hjá honum og það kunna áhorfendur að meta.
Í fyrstu þremur bardögum sínum í UFC náði hann að lenda yfir 100 höggum en það er met. Gaethje er að lenda 8,5 höggum á mínútu í UFC og er það einnig met í UFC.
Bardaginn í kvöld verður því einhver stórskemmtilegur stormur í átthyrningnum þar sem hægt er að ábyrgjast skemmtilegan bardaga. Bardagakvöldið verður sýnt á Stöð 2 Sport í nótt en bein útsending hefst á miðnætti.
