Að undanförnu hefur mikið verið fjallað um óánægju með Harald Johannessen ríkislögreglustjóra en landssamband lögreglumanna og nokkur félög innan þess hafa greint frá mikilli óánægju með nokkra þætti í rekstri embættisins meðal annars í bíla- og fatamálum. Leggja á niður bílamiðstöð ríkislögreglustjóra um áramótin og stendur til að ríkisendurskoðun geri stjórnsýsluúttekt á embætti ríkislögreglustjóra. Þá hefur því verið haldið fram að Haraldur gangi fram með ógnar- og óttastjórnun.
Í viðtali við morgunblaðið í gær sagði Haraldur að markvisst sé reynt að hrekja sig úr embætti. Til þess sé farið fram með rógburð og ósannindi þar sem lögreglumenn kunni ekki að meta þegar tekið sé á þeirra málum hjá embættinu. Ef til starfsloka kæmi muni það kalla á ítarlegri umfjöllun af hans hálfu um valdabaráttuna á bak við tjöldin.
Þingmenn ræddu málið á Sprengisandi í morgun. Helga Vala Helgadóttir segir mjög óheppilegt að yfirmaður lögreglumanna sé kominn í stríð við lögregluembætti á Íslandi. Viðtalið í morgunblaðinu hafi varla verið vænlegt til árangurs.
Það sé mjög undarlegt að hann segi frá þeirri spilling í blaðaviðtali.
Vilhjálmur Árnason, þingmaður Sjálfstæðisflokksins, er einnig hissa á viðbrögðum Haraldar. „Æðsti embættismaður lögreglunnar var mættur þarna í vörn. Hann var að verja sig ekki að verja lögregluna, sem hann ber ábyrgð á. Ég vil benda á að þessi embættismaður er búinn að vera í embætti í tuttugu og tvö ár þannig að einhverja ábyrgð ber hann á ástandinu.“
Hann segir óboðlegt að sami maður gegni sama embættinu í 22 ár.
Þorsteinn Víglundsson, þingmaður Viðreisnar, segir að ráðuneytið þurfi að bera ábyrgð.
„Hér er að koma upp á yfirborðið eitthvað sem búið er að krauma mjög lengi undir niðri og þá auðvitað horfir maður til ábyrgðar ráðuneytis. Augljóst er að þarna hefur verið mikill vandi sem ekki hefur verið tekið á.“
Helga Vala tekur undir þetta: „Dómsmálaráðherra þarf að meta það, hvort vegur þyngra, löggæslan eða Haraldur.“