Innlent

Nýr Þing­valla­vegur opnaður í dag

Atli Ísleifsson skrifar
Umferð um Þingvallaveg hefur aukist verulega á undanförnum árum.
Umferð um Þingvallaveg hefur aukist verulega á undanförnum árum. Vegagerðin
Þingvallavegur verður opnaður formlega klukkan 14 í dag eftir endurbætur sem staðið hafa frá júní 2018. Kaflinn sem um ræðir er frá þjónustumiðstöðinni og að tengingu við Vallaveg.

Í tilkynningu frá Vegagerðinni segir að samhliða því að endurbættur Þingvallavegur verður opnaður er Vallavegur gerður að botnlanga. Verður einungis hægt að fara inn á Vallaveg í norðurenda vegarins, við Silfru.

Að sögn Vegagerðarinnar var áætlaður heildarkostnaður verksins 767 milljónir króna. Endanlegu uppgjöri verksins sé hins vegar ekki lokið en búast megi við auknum kostnaði sér í lagi vegna endurbóta á hjáleiðinni um Vallaveg.

Umferð um Þingvallaveg hefur aukist verulega á undanförnum árum. „Árið 2010 var umferð um 430 bílar á sólarhring en árið 2016 var umferðin 1.500 bílar á sólarhring sem er 250 % aukning. Gert er ráð fyrir að eftir 25 ár verði umferðin allt að 4.000 bílar á sólarhring,“ segir í tilkynningu Vegagerðarinnar.

Sigurður Ingi Jóhannsson samgönguráðherra, Ari Trausti Guðmundsson, formaður Þingvallanefndar, og Bergþóra Þorkelsdóttir, forstjóri Vegagerðarinnar, munu klippa á borða við bílastæði um 5 km austan við þjónustumiðstöðina á Þingvöllum. Að athöfninni lokinni verður haldið málþing í Hakinu um tilurð og þýðingu vegarins.

 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×