„Menn segja skatta skýra hátt áfengisverð. Því verður ekki mótmælt að áfengisgjöld eru há á Íslandi. Maður spyr sig samt sem áður hvort hér komi ekki fleira til,“ segir Bjarni.
Hann vekur athygli á málinu í tilefni gagnrýni Ólafs Stephensen, framkvæmdastjóra Félags atvinnurekenda, í Viðskiptablaðinu í dag.
Þar gagnrýnir Ólafur 2,5 prósent hækkun áfengisgjalds sem kynnt var í fjárlögum á dögunum. Á vefsíðu FA er bent á að áfengisverð á Íslandi sé 168% hærra en meðaltalið í Evrópusambandinu, eða hátt í þrefalt meðalverðið. Til samanburðar séu óáfengir drykkir 34% dýrari á Íslandi en að meðaltali í ESB.
„Á Nordica hótelinu keypti ég hálfslíters Tuborg Classic um helgina. Hann kostar í ÁTVR, með smásöluálagningunni, 379 kr. samkvæmt vefsíðunni. Sami bjór af krana kostaði 1.400 kr. á hótelinu. Það er 370% yfir smásöluverði ÁTVR. Konan sem afgreiddi mig samsinnti um að þetta væri hátt verð, en taldi það þó ekki það hæsta í borginni.“
Blaðamaður gerði lauslega könnun á verði á stórum bjór, svipuðum þeim sem Bjarni pantaði um helgina. Stór Víking Classic kostar 1290 krónur á Sæta svíninu, Tuborg Classic kostar 1200 krónur á American Bar og 1250 krónur á Danska barnum.
„Það er ástæða til að fylgjast vel með verðþróun í landinu, m.a. vegna mikilvægis þess fyrir ferðaþjónustuna að geta boðið samkeppnishæf verð. Allir þættir verða að vera teknir með í þeirri umræðu, ekki eingöngu opinber gjöld, en þau rýrna að raungildi þessi misserin (áfengisgjald fylgir ekki verðlagi),“ segir Bjarna og á honum að skilja að honum þyki álagning víða meiri en góðu hófi gegnir.