Selma Sól Magnúsdóttir, leikmaður Breiðabliks, klárar ekki tímabilið með Blikum því hún er með slitið krossband. Þetta hefur Fótbolti.net eftir Þorsteini Halldórssyni, þjálfar Breiðabliks, í kvöld.
Selma meiddist í toppslagnum við Val á sunnudag, en sá leikur var í næst síðustu umferð Pepsi Max deildar kvenna.
Hún missir því af lokaumferðinni, en þar er mikið undir þar sem Blikar geta orðið Íslandsmeistarar með sigri á Fylki ef Valur tapar fyrir Keflavík.
Þá eru Blikar einnig í Meistaradeild Evrópu, en Breiðablik leiðir einvígi sitt við Sparta Prag í 32-liða úrslitunum 3-2 eftir fyrri leikinn.
Selma er lykilmaður í liði Breiðabliks og á 14 A-landsleiki fyrir Ísland en hún er aðeins 21 árs gömul.
