Íslendingalið GOG hafði betur gegn Árhúsum í dönsku úrvalsdeildinni í handbolta í kvöld.
Óðinn Þór Ríkharðsson og Arnar Freyr Arnarsson höfðu báðir nokkuð hægt um sig í markaskorun, skoruðu eitt mark hvor í 33-30 sigri GOG.
Viktor Gísli Hallgrímsson varði níu bolta í markinu og var með þrjátíu prósenta markvörslu.
Heimamenn í GOG voru með yfirhöndina í fyrri hálfleik og leiddu leikinn 20-17 í hálfleik þar sem mikið var skorað.
Gestirnir byrjuðu betur og jöfnuðu metin í 21-21 á 35. mínútu. Þá tóku heimamenn aftur við sér og komust yfir á nýjan leik. Þeirri forystu héldu þeir til loka og unnu þriggja marka sigur.
