Þá telur hann kjarasamninga stuðla að stöðugleika sem einnig undirbyggi frekari stýrivaxtalækkanir.
„Peningastefna á Íslandi fer eftir stöðu íslenska hagkerfisins, fyrst og fremst. Við höfum verið að sjá hagkerfið hægja fremur á sér. Sumarið hefur að vísu komið betur út en margir höfðu spáð en eins og staðan er núna þá er hagkerfið heldur að hægja á sér. Við höfum verið að sjá vexti lækka verulega og ekki bara stýrivexti sem fólk horfir mikið á heldur hafa langtímavextir verið að falla allverulega. Þannig að vaxtastig er búið að vera að lækka á Íslandi sem er mjög ánægjulegt,“ sagði Ásgeir í Seðlabankanum í morgun þegar hann tók þar formlega við.
„Það er búið að vera sjö, átta ára uppsveifla og það er að hægja á hagkerfinu núna. Við erum að sjá fækkun ferðamanna. Það kallar á stýrivaxtalækkanir sem gætu hæglega haldið áfram. Við erum líka að sjá kjarasamninga sem ég tel að stuðli að stöðugleika í landinu og allt þetta undirbyggir frekari stýrivaxtalækkanir. En þetta veltur dálítið á því hvernig hagkerfið þróast. Ísland er svo lítið land og við erum svolítið eins og hálfgerður klúbbur þannig að hagkerfið er mjög fljótt að snúast,“ sagði Ásgeir.