Erlent

Nærri 100 látnir í Ind­landi vegna monsún storma

Hallgerður Kolbrún E. Jónsdóttir skrifar
Miklar rigningar hafa verið í Mumbai.
Miklar rigningar hafa verið í Mumbai. getty/ Imtiyaz Shaikh
Minnst 95 eru látnir vegna monsún flóða í suður- og vesturhluta Indlands og hafa hundruð þúsunda þurft að flýja heimili sín. Frá þessu er greint á vef breska ríkisútvarpsins BBC.

Meira en fjörutíu þeirra látnu voru frá Kerala ríki í suðvesturhluta Indlands. Mörg svæði eru mjög einangruð vegna mikilla rigninga og aurskriða.

Yfirvöld hafa biðlað til þeirra sem hafa fundið fyrir hamförunum að leita upp í meiri hæð.

Monsúnvindar ríða yfir Indland ár hvert á sumrin, á milli júní- og septembermánaða. Þrátt fyrir mikilvægi þeirra til að fylla á minnkandi vatnsból valda þeir oft dauðsföllum og eyðileggingu á hverju einasta ári.



Talsmenn almannavarna sögðu meira en 100 þúsund manns frá Kerala hafa þurft að yfirgefa heimili sín og haldi nú til í neyðarbúðum en meira en 40 hafi látið lífið á svæðinu.

„Aurskriður hafa fallið á um 80 stöðum, vegna rigninga og flóða, sem við náum ekki til,“ sagði talsmaður lögreglunnar, Pramod Kumar, í samtali við fréttastofu AFP.

Áframhaldandi rigningum er spáð næstu daga og mun herinn því gera tilraunir til að koma matvælum til strandaðra aðila úr lofti.

Í fyrra dóu meira en 200 manns á Kerala svæðinu vegna flóðanna og var þeim lýst sem verstu flóða í ríkinu í meira en 100 ár.

Bæði Karnataka ríki og Maharashtra ríki hafa einnig fundið fyrir miklum rigningum og hafa nokkur dauðsföll verið tilkynnt og hundruð þúsunda hafa yfirgefið heimili sín.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×