Körfubolti

Konurnar slógust í WNBA-deildinni um helgina

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Brittney Griner missti algjörlega stjórn á skapi sínu.
Brittney Griner missti algjörlega stjórn á skapi sínu. Getty/Christian Petersen
Harka er farin að færast í leikinn í kvennaboltanum í Bandaríkjunum. Sex leikmenn voru reknir út úr húsi í leik Phoenix Mercury og Dallas Wings í WNBA-deildinni í körfubolta um helgina.

Það sauð upp úr í kvennakörfuboltaleik í Talking Stick Resort Arena í Phoenix um helgina. Leikmaðurinn sem lék sér að því að troða ítrekað í stjörnuleiknum á dögunum lét skapið hlaupa með sig í gönur í leiknum eftir að hafa látið kappsaman nýliða pirra sig.

Umrædd troðslukona Brittney Griner hljóp á eftir nýliðanum Kristine Anigwe í liði Dallas og allt varð vitlaust í framhaldinu.





Slagsmálin urðu þegar 6:23 mínútur voru eftir af leiknum og Phoenix Mercury var 71-68 yfir. Einn dómarinn kom í veg fyrir að þetta færi enn verr þegar hann hélt Brittney Griner en eins og sést á myndbandinu hér fyrir neðan þá var það ekki auðvelt verk.

Dómarnir sátu lengi yfir myndbrotum úr sjónvarpsvélunum og ákváðu síðan að reka sex leikmenn út úr húsi.

Griner og Anigwe voru auðvitað rekin út úr húsi enda upphafskonur að öllu saman en fjórir aðrir leikmenn fylgdu í kjölfarið eða þær Diana Taurasi og Briann January hjá Phoenix og þær Kayla Thornton og Kaela Davis úr liði Dallas.

Diana Taurasi var ekki að spila leikinn en hljóp inn á völlinn þegar slagsmálin hófust.

„Ég hljóp inn á völlinn til að koma í veg fyrir að það yrði ráðist á liðsfélaga minn. Griner var slegin í andlitið og svo stökk einhver upp á bakið á henni og sló hana ítrekað. Ég myndi fara inná í 100 skipti af hundrað mögulegum,“ sagði Diana Taurasi.

„Leiðinlegt með þessi slagsmál. Þau hjálpuðu hvorugu liðinu en svona hlutir gerast,“ sagði Brian Agler, þjálfari Dallas Wings liðsins eftir leik.  Dallas snéri við leiknum eftir slagsmálin og vann hann 80-77.

NBA



Fleiri fréttir

Sjá meira


×