Enski boltinn

Gary Neville hefur engan áhuga á að gerast þjálfari á ný

Ástrós Ýr Eggertsdóttir skrifar
Sir Alex Ferguson var lærimeistari bæði Gary Neville og Ole Gunnar Solskjær. Solskjær fetar í fótspor Sir Alex sem stjóri Manchester United, Neville hefur hins vegar engann áhuga á því
Sir Alex Ferguson var lærimeistari bæði Gary Neville og Ole Gunnar Solskjær. Solskjær fetar í fótspor Sir Alex sem stjóri Manchester United, Neville hefur hins vegar engann áhuga á því vísir/getty
Fyrrum Manchester United maðurinn Gary Neville hefur engan áhuga á því að klæðast þjálfaragallanum á ný. Hann reyndi fyrir sér sem þjálfari Valencia en lifði ekki lengi.

Neville, sem er 44 ára gamall, var ráðinn til Valencia haustið 2015 og var fjóra mánuði við stjórnvöllinn þar. Hann var á endanum rekinn frá félaginu eftir að hafa aðeins náð 10 sigrum í 28 leikjum. Þá var hann hluti af þjálfarateymi enska landsliðsins frá 2012 til 2016.

Þrátt fyrir að þjálfaraferillinn sé ekki glæstur hefur Neville skapað sér nafn sem sjónvarpsspekingur og er einn helsti sérfræðingur Sky Sports. Þá er hann hlutaeigandi í fjórðu deildar liðinu Salford City og rekur þjónustufyrirtæki ásamt Ryan Giggs.

Samtímamenn Neville hafa verið að láta meira fyrir sér fara í þjálfun upp á síðkastið; Ryan Giggs er landsliðsþjálfari Wales, Frank Lampard er orðinn stjóri Chelsea, Steven Gerrard er að gera góða hluti með Rangers og bróðir Gary, Phil Neville, þjálfar enska kvennalandsliðið. Þá var systir þeirra bræðra, Tracey Neville, þjálfari enska netbolta (e. netball) landsliðsins.

Gary hefur hins vegar engan áhuga á að láta reyna á þjálfaraferilinn aftur.

„Það er ekki einn einasti hluti af mér sem vaknar á morgnanna og hugsar með sér að hann vilji vera úti á æfingasvæðinu,“ sagði Neville við BBC.

„Ég hef mun meiri áhuga á viðskiptahliðinni, að vera í stjórnarherberginu. Ég elska að horfa á leiki, en ég vil ekki vera úti á æfingasvæðinu. Ég gerði það og sá partur af lífi mínu er búinn.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×