Sóley Margrét hlaut gull í bæði hnébeygju og bekkpressu en silfur í réttstöðulyftu þar sem hún bætti þó heimsmet í unglingaflokki. Samanlagt lyfti hún 710 kílóum í greinunum þremur sem dugði fyrir heimsmeistaratitlinum. Alls bætti hún heildarframmistöðu sína um 32 kíló frá því á EM í maí og segir árangurinn fram úr væntingum.
„Væntingarnar voru aðeins undir þessu, ég viðurkenni það. Þetta kom smá á óvart,“ segir Sóley í Sportpakkanum á Stöð 2 í gærkvöldi.
„Ég var með há markmið, en þetta var kannski aðeins rúmlega. Þú verður alltaf að trúa því að lóðin séu að fara upp, annars fer þetta aldrei upp,“ segir Sóley og heldur áfram.
„Maður er eftir sig eftir svona mót. Ég held ég hafi aldrei komið heim eftir mót og ekki fengið yfir 39 stiga hita. Taugakerfið fer í verkfall, það má segja það.“
Gat ekkert í handbolta
Sóley var áður í handbolta en segir lyftingarnar hafa legið betur fyrir sér.
„Ég var í handbolta í tíu ár og datt þarna inn á æfingu, fékk stjörnur í augun og fann alveg snemma að ég gæti orðið góð í þessu og féll fyrir þessu sporti strax. Ég var ekkert góð í handbolta,“ segir Sóley og hlær.
„Ég stefni hæst í þessar íþrótt, punktur,“ segir Sóley en viðtalið við hana má sjá hér að neðan.