Fótbolti

UEFA viður­kennir mis­tök í mynd­bands­dóm­gælu í Þjóða­deildinni

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Alexander Isak komst ekki á blað í leiknum. Klikkaði á víti og svar mark ranglega dæmt af honum.
Alexander Isak komst ekki á blað í leiknum. Klikkaði á víti og svar mark ranglega dæmt af honum. Getty/Robbie Jay Barratt

Knattspyrnusamband Evrópu hefur viðurkennt að dómarar í VAR-herberginu hafi gert mistök í leik í Þjóðadeildinni í gær.

Mistökin skiptu reyndar litlu máli á endanum því Svíar unnu Aserbaídsjan 6-0 í þessum leik í C-deildinni.

Viktor Gyökeres skoraði fernu í leiknum en Alexander Isak komst hins vegar ekki á blað. Framherji Newcastle klúðraði vítaspyrnu og skoraði líka mark sem var dæmt með hjálp myndbandsdómaranna.

@Sportbladet

Sportbladet sendi UEFA fyrirspurn um málið og fékk þau svör að myndbandsdómararnir hafi þarna gert mistök. Það var reyndar augljós fyrir flesta nema þá.

Myndbandsdómarnir teiknuðu rangstöðulínuna nefnilega á röngum stað. Isak var því réttstæður og líka mjög pirraður eftir leikinn því þetta var laglegt mark hjá honum.

Isak fór upp hálfan völlinn áður en hann kom boltanum í netið og hélt að hann hefði skorað fjórða mark Svía. Markið var líka smá sárabót eftir vítaklúðrið fyrr í leiknum.

Myndbandsdómararnir voru hins vegar á því að þetta hafi verið rangstaða og markið fékk ekki að standa.

Það sáu þó þeir sem vildu að Isak var aldrei rangstæður.

„Þetta svíður svolítið. Ég verð að viðurkenna það. Þeir teikna línuna á kolröngum stað og það er lélegt. Ég get sætt mig við atvik sem eru matsatriði og að fólk hafi misjafnar skoðanir. Þetta var ekkert slíkt. Þeir teiknuðu línuna bara á röngum stað,“ sagði Isak við Sportbladet eftir leikinn.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×