Eins og Vísir greindi frá fyrr í sumar vilja sjö verða þjóðleikhússtjórar. Sérfræðingarnir sem Halldór vísar til eru ráðningarfyrirtækið Capacent og mun það aðstoða við upphaf ferils en þjóðleikhúsráð mun þá ljúka vinnunni sjálft. Þegar álit ráðsins liggur fyrir mun Lilja Dögg Alfreðsdóttir mennta- og menningarmálaráðherra taka afstöðu til málsins og skipa þjóðleikhússtjóra í kjölfar þess, hvort sem það verður sitjandi stjóri eða einhver annar.

Ari Matthíasson, þjóðleikhússtjóri
Brynhildur Guðjónsdóttir, leikari og leikstjóri
Guðbjörg Gústafsdóttir
Kolbrún K. Halldórsdóttir, leikstjóri
Kristín Eysteinsdóttir, leikhússtjóri Borgarleikhússins
Magnús Geir Þórðarson, útvarpsstjóri
Stefán Sturla Sigurjónsson, verkefnastjóri, leikari og rithöfundur.
Spenna um ráðninguna
Skipað verður í embætti þjóðleikhússtjóra frá og með 1. janúar 2020. Vísir hefur fjallað nokkuð um vendingar í leikhúsinu og baráttu þar bak við tjöldin en veruleg spenna ríkir um þessa stöðuveitingu sem kann hugsanlega að hafa einhverjar hrókeringar í för með sér sem ýmsir eru áhugasamir um. Til að mynda kann að fara svo að starf útvarpsstjóra losni nú eða starf leikhússtjóra Borgarleikhússins.Hvorugt þeirra Magnúsar Geirs né Kristínar, sem bæði hljóta að teljast sterkir umsækjendur, sigla lygnan sjó en væntanleg er niðurstaða stjórnsýsluúttektar Ríkisendurskoðunar á Ríkisútvarpinu og í næsta mánuði mun Einar Þór Sverrisson lögmaður flytja mál leikarans Atla Rafns Sigurðssonar á hendur Kristínu Eysteinsdóttur og Borgarleikhúsinu vegna uppsagnar sem vakti mikla athygli á sínum tíma og tengist MeToo-byltingunni.
Þá hefur Ari Matthíasson þjóðleikhússtjóri staðið í ströngu í málum sem tengjast deilum hans og Birnu Hafstein, formanns Félags íslenskra leikara. Þjóðleikhúsráðið sem nú situr er nýtt og var skipað eftir að hið eldra sagði allt af sér vegna deilna innan leiklistargeirans.