Ekki tókst að losa öll hræ grindhvalana úr fjörunni í Garði eins og til hafði staðið. Eitt hræ, sem hafði áður losnað og síðan flotið aftur í land var urðað í fjörinni. Þannig var sleginn botn í langa verslunarmannahelgi björgunarsveitarfólks.
Um fimmtíu grindhvalir strönduðu í fjörunni við Útskálakirkju í Garði á föstudagskvöld. Nær allar götur síðan hafa staðið yfir aðgerðir í fjörunni, þar sem björgunarsveitarfólk hefur ýmist náð að losa dýrin og ýta þeim aftur á haf út, eða losa hræ þeirra hvala sem ekki tókst að bjarga.
Stefnt var að því að losa síðustu fjögur hræin sem eftir voru í gærkvöldi, sem tókst ekki alveg því einu varð ekki haggað.
„Það gekk reyndar vel með eitt dýrið en tvö þeirra voru erfiðari því að það er verið að myndast gasmyndun í dýrunum. Þá er erfiðara að sökkva þeim og það verður því erfiðara með hverjum deginum. Sérstaklega ef dýrin eru stór,“ sagði Bergný Sævarsdóttir, staðgengill bæjarstjóra hjá Suðurnesjabæ, í hádegisfréttum Bylgjunna en hún hefur fylgst með aðgerðum um helgina.
„Það sem eftir er er minna og vonandi gengur það betur,“ bætti hún bið.
Björgunarsveitarfólk var því aftur ræst út í hádeginu í von um að koma síðasta hræinu á brott.
„Þetta dýr sem eftir er í fjörunnni á Garðskaga það fór sjálft á flot í gær, fór aftur á land á öðrum stað. Önnur dýr hafa enn þá ekki rekið upp. Vonandi verður það þannig. Vonandi takast þessar aðgerðir þannig að við þurfum ekki bara að halda áfram í næstu viku hvað þetta varðar,“ sagði Bergný.
Fljótlega var þó tekin ákvörðun um að urða síðasta hræið í fjörunni. Grafið var tvo metra niður og hræinu komið þar fyrir. Segir Bergný að áfram verði fylgst með þróun mála og hvort að einhver hræ muni aftur reka á land. Nú sé þó aðgerðum að mestu lokið, löng og ströng vakt því á enda.
Það er nóg að eyða einni verslunarmannahelgi í þetta?
„Já, það er búið að vera löng og ströng verslunarmannahelgi, sérstaklega hjá björgunarsveitamönnum.

