Kröfðust helstu spjallþáttastjórnendur ytra tafarlausra aðgerða frá yfirvöldum til þess að gera einstaklingum erfiðara um vik að eignast jafn öflug skotvopn og notuð hafa verið í skotárásum í Bandaríkjunum. Skotárásir eru tíðar þar í landi og fórnarlömbin orðin mörg á undanförnum árum. Samt sem áður næst lítill árangur í því að draga úr slíkum árásum.
Repúblikinn Mitch McConnell, leiðtogi meirihlutans í öldungadeild Bandaríkjaþings var í gærkvöldi aðalskotspónn spjallþáttastjórnenda á borð við Jimmy Kimmel, Jimmy Fallon, Stephen Colbert, Trevor Noah og Seth Meyers. McConnell hefur á þingi komið í veg fyrir að hertari skotvopnalöggjöf nái fram að ganga. Hann varð fyrir því ólani að axlarbrotna um helgina og var það oftar en ekki miðpunktur brandara háðfuglanna á hans kostnað, en ekki var mikið um grín þegar málið var tekið fyrir af þeim félögum um helgina.
Meðal þess sem þeir tóku fyrir voru ummæli Donald Trump um að mögulega væri að hluta til hægt að kenna tölvuleikjum um þann mikla fjölda skotárása sem Bandaríkjamenn hafa mátt þola.
„Það hljómar eins og ágætis röksemdarfærsla,“ sagði Trevor Noah, áður en hann reif hann í sundur með því að skipta út Crocs-skóm út fyrir tölvuleiki. Í þætti sínum fór hann einnig yfir það hversu ítarleg skref eru stigin til þess að auka öryggi í samgöngum og færði hann rök fyrir því að það sama ætti að gilda varðandi byssur.
Seth Meyers lauk sínum þætti með því að biðla til þingmanna um að taka sig saman í andlitinu og grípa til aðgerða á meðan Jimmy Kimmel gagnrýndi Donald Trump, forseta Bandaríkjanna harkalega og áherslu hans á að kenna mætti falsfréttum um sem flest sem aflaga er í Bandaríkjunum.
„Vitið þið hvað er hægt að tengja við skotárásir. Byssur eru tengdar við skotárásir. Vandamálið er ekki falsfréttir, það eru alvöru byssur,“ sagði Kimmel en sjá má helstu atriði fimmenninga um skotárásirnar hér að neðan.