Aðeins tveir starfsmenn voru inni í byggingunni þegar sprengjan varð en hvorugan sakaði. Einn varð fyrir braki og leitaði á sjúkrahús til aðhlynningar.
Sjá nánar: Sprengin við dönsku Skattstofuna
Frederiksen sagði að um alvarlegan glæp væri að ræða og kraftmikla sprengingu.
Lögregluyfirvöld sögðu á blaðamannafundi í morgun að sprengingin væri viljaverk og að yfirvöld litu málið alvarlegum augum. Þetta væri árás af ásettu ráði.
Á blaðamannafundi sem lauk rétt í þessu sagði Frederiksen að þetta væri ofbeldisverk gagnvart íbúum, nágrönnum og starfsfólki Skattstofunnar, hvers vinnustaður hefði verið lagður í rúst. Sprengingin væri árás á öryggiskennd þjóðarinnar.

Grimmdarverk á borð við þetta græfu undan öryggiskennd þjóðarinnar.
Frederiksen tók mið af orðum dönsku lögreglunnar og benti á að of snemmt væri að segja til um tilefni árásarinnar en engu að síður væri ljóst að glæpurinn hefði verið framinn af ásettu ráði. Eftirlit með opinberum byggingum í Kaupmannahöfn hefur verið hert og lögreglunni veittur liðsauki til að takast á við verkefnið.
Stórt svæði hefur verið girt af og fjölmennt lið lögreglu og sprengjusérfræðinga voru að störfum í alla nótt. Lögreglan kallaði eftir ábendingum almenningi í morgun og bað fólk um að hafa samband ef það teldi sig búa yfir upplýsingum.
Töluverðar skemmdir urðu á framhlið byggingarinnar en glerbrot frá brotnum rúðum liggja á víð og dreif um sprengjuvettvang. Íbúar í nærliggjandi húsum Austurbrúar hrukku í kút við hvellinn og lýstu því hvernig rúðurnar á heimili þeirra nötruðu.