„Þá vaknar spurning um hvernig þetta hefur borist á milli. Það voru ekki öll börnin sem smituðust að kássast í kálfunum,“ segir Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir og vísar til upplýsinga frá foreldrum hinna smituðu barna. Hann segir sýnatökur og rannsóknir hafa beinst að því hvað börnin borðuðu og öðru sem þau komu nálægt á bænum.
Staðarhaldarar í Efstadal hafa gerilsneytt mjólk og framleitt sinn eigin ís sem er til sölu á staðnum. „Ísframleiðslan hefur verið stöðvuð en við höfum ekki getað staðfest eða fundið þessar bakteríur í ísnum og því ekki hægt að staðfesta að sýkingin hafi komið úr honum,“ segir Þórólfur. Aðspurður segir hann heldur ekki unnt að útiloka að ísinn sé smitleiðin.
„Við erum náttúrulega ekki með ísinn sem börnin borðuðu, það er of langt liðið og komin önnur framleiðsla og ekki hægt að taka sýni úr þeim ís,“ segir Þórólfur og bætir við að smitleiðirnar kunni einnig að vera fleiri. Einhverjir hafi smitast eftir viðkomu hjá kálfunum og aðrir annars staðar. Hann segir að sýni hafi einnig verið tekin hjá starfsmönnum í Efstadal til að kanna hvort smitið hafi borist víðar. „Niðurstaða þeirra sýna segir okkur þó ekki endilega hver smitaði hvern og erfitt að túlka niðurstöðurnar öðru vísi en að þetta sé útbreitt á staðnum.“

„Það er alveg skýrt hverjir vinna fjósastörf og hverjir vinna við matvælaframleiðslu. Það er bara glæpur að blanda því eitthvað saman og það er ekki verið að stunda glæpi hér í Efstadal,“ segir Sölvi aðspurður um hvort starfsfólk gangi í öll störf á bænum hvort heldur er umhirðu dýra eða þjónustustörf og matvælaframleiðslu.
Sölvi segist hins vegar líta svo á að skýringin á smitinu liggi í raun fyrir og yfirlýsing Landlæknisembættisins sýni að heilbrigðisyfirvöld líti svo á að smitleiðin sé í gegnum kálfaklapp barnanna sem svo fari og borði ís.
Um líðan barnanna sem veiktust segir Þórólfur að sýkingin hafi haft nokkuð alvarlegar afleiðingar hjá þremur barnanna og eitt þeirra hafi þurft kviðskimun þar sem nýru þess störfuðu ekki eðlilega. Hann segir að liðið geti tíu dagar frá því niðurgangur hefst þar til alvarleg einkenni fara að koma í ljós. Börnin þurfa því að vera áfram í eftirliti á Barnaspítalanum og koma í prufur svo hægt sé að fylgjast með þróuninni.