Rannsókn lögreglunnar á Austurlandi á hnífstungu í heimahúsi í Neskaupstað aðfaranótt fimmtudags gengur ágætlega að sögn Elvars Óskarssonar lögreglufulltrúa sem stýrir rannsóknardeildinni.
Maðurinn sem grunaður er um hnífstunguna var úrskurðaður í fjögurra vikna gæsluvarðhald í liðinni viku á grundvelli almannahagsmuna. Málið er rannsakað sem tilraun til manndráps.
Maðurinn kærði gæsluvarðhaldsúrskurðinn til Landsréttar á föstudag og mun rétturinn að öllum líkindum taka afstöðu til kærunnar síðar í þessari viku.
Sá sem fyrir árásinni varð var fluttur með sjúkraflugi til Reykjavíkur þar sem hann gekkst undir aðgerð á Landspítalanum á fimmtudag.
Elvar segist telja að hann sé enn á sjúkrahúsi en lögregla tók af honum skýrslu á föstudag.
Aðspurður hvort að mennirnir hafi verið tveir einir í húsinu þegar maðurinn var stunginn eða hvort önnur vitni að árásinni segist Elvar ekki vilja tjá sig um það enda sé rannsókn málsins á frumstigi.
