Annar björgunarbátur, í þetta sinn með 41 flóttamann innanborðs, hefur lagt að bryggju á Ítalíu, þrátt fyrir bann ítalskra stjórnvalda þar um. Skipstjóri á bátnum Alex tók ákvörðun um að stefna bátnum til hafnar á ítölsku eyjunni Lampedúsa vegna óviðunandi hreinlætisaðstæðna um borð að því er BBC greinir frá.
Matteo Salvini, innanríkisráðherra Ítalíu, segir að komið verði í veg fyrir áform skipstjórans en flóttafólkið sem er um borð hefur ekki stigið á land á eyjunni. Í fyrra lét Salvini loka ítölskum höfnum fyrir björgunarbátum og hófu yfirvöld að leggja sektir á hvern þann sem siglir til hafnar á Ítalíu í leyfisleysi.
Annað björgunarskip með 65 flóttamönnum innanborðs er statt skammt frá eyjunni en hefur ekki mátt leggja að bryggju. Fyrir viku síðan var skipstjóri á skipinu Sea-Watch 3, handtekin fyrir að sigla í höfn á eyjunni með 53 flóttamenn um borð.
Ítalía hefur fundið mikið fyrir flóttamannastraumnum sem fer Norður Afríku leiðina, þá einna helst frá Libíu. Í síðasta mánuði voru samþykkt neyðarlög sem heimila sektir á skip sem leggja að bryggju í leyfisleyfi en sektirnar nema allt að sjö milljónum íslenskra króna.
Annar flóttamannabátur sigldi til Ítalíu

Tengdar fréttir

Björgunarskip fullt af flóttafólki fór til Ítalíu þvert á tilmæli stjórnvalda
Forsætisráðherra Ítalíu segir innflutning fólks ekki eiga að vera í höndum þeirra sem taka lögin í sínar hendur.

Segir skipstjóra björgunarskipsins hafa reynt að sökkva lögreglubátum
Innanríkisráðherra Ítalíu, Matteo Salvini, sakar Carolu Rackete, skipstjóra björgunarskips sem kom ólöglega í land í Lampedusa á föstudag, um að hafa reynt að sökkva skipum lögreglu.

Skipstjóri björgunarskipsins segir Evrópuþjóðir hafa engan áhuga á að leysa vandann
Skipstjórinn segist hafa reynt árangurslaust að koma á samstarfi við yfirvöld víða um álfuna.