Landhelgisgæslan tekur brátt í notkun aðra Airbus H225 þyrlu en nýja þyrlan, sem hlotið hefur nafnið TF-GRO lenti í fyrsta skipti á Reykjavíkurflugvelli í gærkvöldi. Hin þyrlan af sömu gerð er TF-EIR sem kom til landsins í mars og fór í sitt fyrsta útkall fyrir tæpum mánuði.
Þyrlurnar eru báðar leiguþyrlur og segir í tilkynningu Landhelgisgæslunnar að þyrlurnar færi gæsluna fyrr inn í nútímann en ráðgert var. Þyrlurnar nýju sé stærri langdrægari, hraðfleygari og öflugri en þær sem notaðar hafa verið undanfarin ár.
Flogið var til Reykjavíkur frá Noregi með stoppum á Hjaltlandseyjum, Færeyjum og Höfn í Hornafirði áður en að lent var á Reykjavíkurflugvelli.
Áhöfn þyrlunnar á leiðinni skipuðu Sigurður Heiðar Wiium, yfirflugstjóri, Andri Jóhannesson, flugmaður, og Jón Erlendsson, yfirflugvirki. TF-GRO verður formlega tekin í notkun síðar í mánuðinum.
Hér að neðan má sjá þegar TF-GRO lenti í Reykjavík í fyrsta sinn.