Sjóðurinn var stofnaður í kjölfar þess að dómur féll í málum Hildar Lilliendahl Viggósdóttur og Oddnýjar Arnarsdóttur, en þær voru þann 19. júní dæmdar fyrir ummæli sem þær létu falla um tvo menn vegna Hlíðamálsins-svokallaða.
Markmið sjóðsins er að draga úr hræðslu kvenna við að tjá sig um kynferðisbrotamál og ofbeldi og tryggja að þeir sem tjái sig um þessi mál lendi ekki í fjárhagsörðugleikum vegna málssókna.
Sjá einnig: Stofna sjóð til að draga úr hræðslu kvenna við að tjá sig um kynbundið ofbeldi
Anna segir stofnun sjóðsins vera andsvar við þeirri ólgu sem upp kom vegna mála Hildar og Oddnýjar um að einstaklingar gætu ekki tjáð sig um kynferðisbrotamál eða ofbeldi án þess að vera sóttir til saka fyrir þau ummæli.
„Það er einfaldlega stórhættulegt fyrir okkur að tala um þetta ofbeldi og það hrökkva allir í baklás þegar konur ætla að tjá sig um það ofbeldi sem þær, eða aðrar konur, verða fyrir,“ segir Anna Lotta.

Sjá einnig: Oddný og Hildur dæmdar til greiðslu bóta vegna Hlíðamálsins
Sigrún Ingibjörg, lögmaður Oddnýjar og Hildar, sagðist í samtali við Vísi í vikunni reikna með því að niðurstöðunni verði áfrýjað. Ekki náðist samband við Sigrúnu við vinnslu þessarar fréttar.
„Þessi sjóður kemur þessu einstaka máli í rauninni ekki við en mér þykir mjög skrítið að hægt sé að höfða meiðyrðamál gegn einstaklingi sem lætur ummæli falla í samræmi við fréttaflutning fjölmiðla,“ segir Anna Lotta.
„Þetta er mjög fordæmisgefandi hvað varðar meiðyrðamál og ég vona að þær áfrýi og ég er mjög ósammála því að svona eigi að taka á þessum málum. Þetta sýnir að í raun má ekki hvetja til mótmæla og vitna í fjölmiðla þegar kemur að svona grafalvarlegum málum, eða þannig virðist mér þetta vera.“

Anna Lotta telur þetta hættulegt, ef banna eigi fólki að nota almenn orð sem lagastéttin skilgreini á einhvern ákveðinn hátt en í þessu tilviki hafi héraðsdómur refsað Hildi og Oddnýju fyrir notkun hugtaksins „almannahagsmunir“. Notast var við setninguna „Ekki mínir almannahagsmunir“ í umræðum á samfélagsmiðlum í kjölfar fréttaflutningsins árið 2015. Verið sé að fara gegn einstaklingum sem túlki orð fréttamiðla og veki það hræðslu.
Anna Lotta vill hvetja fólk til að taka þátt og styrkja söfnunina til að styðja við bakið á þolendum.
„Vonandi getum við fengið kerfinu breytt fyrir þolendur svo að svona ólga brjótist ekki út. Mér þykir miður ef þessir menn hafa hlotið einhverja hnekki en mér finnst þetta mál svo miklu stærra en það.“