„Í gær forðaði ég eflaust þýskum ferðamanni frá því að drekkja sjálfum sér í briminu við Reynisfjöru. Miðaldra karlinn reif sig skyndilega úr fötunum og stóð allt í einu á sundskýlunni. Hljóp síðan í sjó fram og átti eftir nokkur skref þegar ég stökk til og skipaði honum með bendingum og óðum að koma sér hið bráðasta á þurrt aftur. „You wanna drown your self! Get out of the water!“
Kristinn R. Ólafsson, sem ekki síst er þekktur fyrir vinsæla útvarpspistla sína frá Spáni í gegnum tíðina, greinir frá þessu á Facebooksíðu sinni nú fyrir skemmstu. Og kann að segja frá atvikinu.
„Ég hafði staðið og fylgst með hópi Spánverja sem ég hef verið með í hringferð - að þeir færu sér ekki að voða. Þetta og rauður stakkur minn gerðu mig svolítið strandvarðarlega. Þjóðverjinn hefur eflaust talið mig yfirvald á staðnum og hlýddi mér umyrðalaust.“
Það fylgir sögunni að Kristinn hafi gleymt að taka mynd af Þjóðverjanum á skýlunni. En hann spurði hvaðan maðurinn væri og ítrekaði við hann hversu hættulegt athæfi hans hefði verið.
„Skil ekki hvernig einhver menntaskólaþýska, úr dýpstu hugarfylgsnum hrökk uppúr mér: „Viele Leute haben gestorben hier“.“