Skoðun

Svört hvítasunna

Ágúst Ólafur Ágústtson skrifar
Á föstudegi fyrir hvítasunnu birtust djúpt á fylgiskjali númer 7 ótrúlegar breytingartillögur ríkisstjórnarinnar á fjármálaáætlun sinni.

1. Fjárframlög til öryrkja næstu 5 árin eiga að lækka samanlagt um tæpa 8 milljarða frá því sem hafði þegar verið kynnt þegar fjármálaáætlunin var fyrst lögð fram fyrir rúmum 2 mánuðum. Niðurskurður VG, Framsóknar og Sjálfstæðisfólks á Alþingi á fyrirhuguðum fjárveitingum til að bregðast við breyttum aðstæðum í hagkerfinu er einna mestur gagnvart öryrkjum. Það er nú ansi vond pólitík.

2. Nýsköpun og rannsóknir fá tæpa 3 milljarða kr. lækkun samanlagt næstu 5 árin og umhverfismálin lækka um 1,4 milljarða kr. frá því sem hafði verið tilkynnt í fjármálaáætluninni. Framtíðin fær þarna högg.

3. Framhaldsskólar fá 1,8 milljörðum kr. lægri upphæð samanlagt næstu fimm árin miðað við framlagða fjármálaáætlun og minnka heildarframlög til þeirra meira að segja næstu fimm árin þrátt fyrir loforð um að „styttingarpeningarnir“ ættu að haldast og allt tal um „menntasókn“.

4. Menning og æskulýðsmál fá tæplega 9% lækkun á heildarframlögum frá 2019 til 2024.

5. Sjúkrahúsþjónusta fær um 4,7 milljarða kr. lækkun samanlagt næstu 5 árin í breytingartillögunum og heilsugæsla og sérfræðiþjónusta fær um 2 milljarða kr. lækkun næstu 5 árin.

6. Hjúkrunarheimilin fá 3,3% lækkun á fjárframlögum sínum næstu 5 árin þrátt fyrir aukna öldrun þjóðarinnar.

7. Samgöngumál fá 2,8 milljarða kr. lækkun samanlagt næstu fimm árin frá því sem áætlunin gerði fyrst ráð fyrir. Sé litið til heildarútgjalda til samgöngumála þá lækka þau um 17% næstu fimm árin.

Þetta er allt saman gert á sama tíma og veiðileyfagjöldin eru lækkuð niður í upphæð tóbaksgjalda, lækkun bankaskatts er enn í forgangi og við höldum enn í lægsta fjármagnstekjuskatt af öllum Norðurlöndunum.

Viðbrögð formanns Öryrkjabandalagsins við breytingartillögunum voru þessi: „Verða þetta málalokin, verða þessar vanefndir minnisvarði ríkisstjórnar Katrínar Jakobsdóttur?“




Skoðun

Skoðun

Börnin okkar

Halla Karen Kristjánsdóttir,Anna Sigríður Guðnadóttir,Valdimar Birgisson skrifar

Sjá meira


×