Lögreglufélag Norðurlands vestra ætlar ekki að kjósa nýjan fulltrúa í stjórn Landssambands lögreglumanna vegna deilunnar um fækkun sérsveitarmanna á landsbyggðinni. Þetta er niðurstaða félagsfundar sem fór fram á lögreglustöðinni á Sauðárkróki í gær.
Fram kemur í yfirlýsingu frá félaginu að hagsmunir félagsins og forystu stjórnar landssambandsins fari ekki saman þegar kemur að bílamálum, málefnum sérsveitar ásamt fata- og tækjamálum.
Fyrir viku ályktaði félagið að afar mikilvægt væri að sérsveit yrði áfram starfrækt á Norðurlandi. Var þá landssambandið hvatt til að „standa í lappirnar“ gagnvart ríkislögreglustjóra sem hefði leyft vandamálum að margfaldast á síðustu árum.
