Frábær þátttaka var í hlaupinu í dag en hlaupið var á yfir áttatíu stöðum víðs vegar um landið og víða erlendis. Mismunandi vegalengdir voru í boði fyrir þátttakendur, allt frá 900 metrum upp í tíu kílómetra.
Góð stemning var hjá þátttakendum og segir í fréttatilkynningu að gleði og kátína hafi skinið úr hverju andliti þegar konur á öllum aldri komu saman og áttu skemmtilega stund. Sumir hlupu á meðan aðrir gengu en rúmlega þrjú þúsund manns hlupu í Garðabæ, þúsund í Mosfellsbæ, þrjú hundruð á Akureyri og í Reykjanesbæ og rúmlega hundrað á Ísafirði og á Egilsstöðum.
Fyrsta Kvennahlaupið var haldið þann 30. júní árið 1990 í Garðabæ og fór það fram í tengslum við Íþróttahátíð ÍSÍ. Lovísa Einarsdóttir kom með hugmyndina frá Finnlandi og þótti það kjörið að bjóða upp á eitthvað nýtt sem höfðaði til almennings á Íþróttahátíðinni. Síðan þá hafa þúsundir kvenna um allt land hlaupið saman í júní í þrjátíu ár.
Markmið Kvennahlaupsins hefur frá upphafi verið að vekja áhuga kvenna á reglulegri hreyfingu og er lögð áhersla á að hver kona taki þátt á sínum forsendum og komi í mark á sínum hraða og með bros á vör. Algengt er að margir ættliðir fari saman í hlaupið og geri sér glaðan dag að hlaupi loknu.

