„Vestan til á Norðurlandi hafa næturfrost verið tíð þessa daga í byggð. Til að mynda á Gauksmýri í Línakradal skammt norðan Hvammstangagatnamóta á þjóðveginum. Þar hefur fryst 6 af síðustu 8 nóttum,“ segir Einar í færslunni og vísar þá til línurits sem má sjá með færslunni neðar í þessari frétt.
Mælingar á öðrum stöðum á þessum slóðum sýni svipaða mynd. Búast megi við áframhaldandi næturfrosti og auknum norðanvindi á svæðinu fram á föstudag.
Einar segir að þessi kuldatíð, sem ef spár ganga eftir verður orðin tveggja vikna löng á föstudag, valdi því að vöxtur grass stöðvist að mestum hluta. Því sé gott að gras hafi sprottið duglega áður en kuldabolinn lét á sér kræla.
„Annar fylgifiskur er þurrkur, einkum suðvestan- og vestanlands. Þar hefur gengið mjög á raka í jarðvegi í sterkri sólinni að undanförnu,“ segir Einar en bendir á að spárnar geri ráð fyrir breytingum á veðurfari í kringum næstu helgi, sem kennd er við Hvítasunnu.
