Heimildir RÚV herma að lögreglustjórar landsins ætli að funda með ríkislögreglustjóra vegna málsins á föstudag og að mikil óánægja sé innan lögreglunnar með rekstur bílamiðstöðvarinnar. Sum lögregluembættin hafi farið þá leið að taka bíla á leigu sem hafi reynst ódýrara en að leigja af bílamiðstöðinni.
Fyrirkomulagið í núverandi mynd er þannig að ríkislögreglustjóri rekur bílamiðstöð lögreglunnar og lögregluembættin leigja lögreglubílana af ríkislögreglustjóra.
Lögreglufélag Norðurlands vestra sendi frá sér tilkynningu í kjölfar félagsfundar um málið. Þar segir að mikilvægt sé að sérsveitin verði aftur starfhæf á Norðurlandi rétt eins og núverandi skipulag ríkislögreglustjóra sjálfs gerir ráð fyrir.
Lögreglufélagið beinir þeim tilmælum til Landssambands lögreglumanna að „standa í lappirnar, lögreglumönnum til heilla í þeim málum er varðar ríkislögreglustjóra“.

„Sérstaklega er bent á ályktun er varðaði fata- og tækjamál, en þar var mótmælt vandræðum lögreglumanna við að nálgast lögreglufatnað. Nú fimm árum seinna hefur vandræðagangur ríkislögreglustjóra í fatamálum margfaldast og nú er svo komið að lögreglustjórar hver í sínu héraði reyna af mætti að kaupa föt á lögreglumenn án nokkurra útboða, og samræmi í fatamálum er lítið á milli embætta. Telur fundurinn að þar fari fram sóun á almannafé“.
Lögreglufélag Norðurlands vestra vill að breytingar verði gerðar á bílamálum lögreglu þannig að lögreglustjórar embættanna sjái sjálfir um rekstur bifreiða lögreglu og að bílamiðstöð ríkislögreglustjóra verði lögð niður.