Umrætt klofningsbrot eru þingmenn Miðflokksins en Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, fyrrverandi forsætisráðherra og núverandi formaður Miðflokks, hætti í Framsóknarflokknum í september árið 2017 til að stofna til nýs stjórnmálaafls.
Sjá nánar: Sigmundur hættir í Framsókn
Sigurður Ingi vitnaði í fleyg orð íslensku rappsveitarinnar XXX Rottweiler hunda til að orða hugsanir sínar í garð þingmanna Miðflokksins sem hann kallar í sífellu „klofningabrot“ í ræðu sinni.
„Við þetta brot segi ég eins og sagt er í frægu lagi: Þér er ekki boðið!“
„Það reyndi á okkur, bæði sem flokk og okkur persónulega. Við fórum samt inn í kosningabaráttuna sem sameinað afl og stóðum styrkum fótum á hugsjónum Framsóknar og sögu,“ segir Sigurður sem bætir við að Framsókn sé ekki sundrungarafl.
Sigurður Ingi útskýrði hvers vegna þingmenn Miðflokksins áttu ekki lengur samleið með Framsóknarflokknum.
Framsókn sé hófsamur og ábyrgur og flokksmenn beri virðingu hver fyrir öðrum.
„Þetta flokksbrot hefur lagt mikið á sig til að komast á dagskrá þessa fundar með fordæmalausu og innihaldslausu málþófi á Alþingi,“ segir Sigurður Ingi sem tekur mið af rúmlega hálfsmánaða löngu málþófi Miðflokksins um innleiðingu þriðja orkupakkans.
„Framsókn er flokkur þar sem fólk getur verið ósammála, flokkur þar sem við berum virðingu fyrir skoðunum hvert annars og skoðunum annarra. Í anda samvinnunnar komumst við að niðurstöðu sem er í þágu heildarinnar, þjóðarinnar allrar.“