Þegar forseti frestaði umræðu um þriðja orkupakkann eftir nítján tíma lotu um klukkan hálf ellefu í morgun hafði heildarumræðan staðið í tæpar 100 klukkustundir og þingmenn Miðflokksins þar af talað í um 80 klukkutíma eða tvær fullar vinnuvikur. Það var ekki laust við að farið væri að sjá á mönnum. Forseti Alþingis er til að mynda nánast orðinn raddlaus eftir sólarhringa kvöld- og næturfundi, eins og sjá og heyra má í fréttinni hér að ofan.
Þegar umræðan hafði staðið í um átján klukkustundir í morgun sagði Bergþór Ólason forseta Alþingis bera ábyrgð á þessum maraþon-fundum og var skyndilega umhugað um starfsmenn Alþingis
„Ég vorkenni okkur þingmönnunum nú minna en starfsmönnunum því að við veljum að vera hérna,“ sagði Bergþór.

Leikhús fáranleikans náð nýjum hæðum að mati stjórnarþingmanns
Ekki voru allir sammála þessu frjálsa vali þingmanna og það væri forseta Alþingis að kenna að ekki sæi fyrir endann á umræðunni.„Þetta leikhús fáránleikans hefur hér náð nýjum hæðum. Ég held að háttvirtir þingmenn Miðflokksins, sem hafa haldið hérna þinginu í þessum umræðum hér, fram á nætur, dag eftir dag, ættu að skammast sín fyrir að draga núna starfsfólk Alþingis, sem hefur þurft að hlaupa eftir þeirra eigin dutlungum, inn í þessa umræðu,“ sagði Kolbeinn Óttarsson Proppé, þingmaður Vinstri grænna.
Undir það síðasta var ekki laust við það að nokkurrar örvæntingar væri farið að gæta hjá þingmönnum Miðflokksins því þeir voru ekki upplýstir um það hvenær fundi lyki.
„Mér er fyrirmunað að skilja það hvers vegna ekki er hægt að segja hvað fundur á að standa lengi. Það er eins og það sé einhver leyndarhyggja á bak við það. Ég hef fengið símtöl hér í morgun frá fjölskyldu minni hvort að ég ætli að koma í útivistarferð í dag með þeim,“ sagði Birgir Þórarinsson, þingmaður Miðflokksins.

Bjarni áður setið heilu sumrin á þinginu
Þótt augljóslega hafi verið dregið af mönnum eftir að fundi var frestað fyrir hádegi báru þingmenn Miðflokksins sig mannalega þegar þeir gengu út í daginn. Leiðin lá á Austurvöll þar sem viðeigandi þótti að taka ljósmyndir af hetjum næturinnar með Jón Sigurðsson í bakgrunni.Ekki liggur hins vegar fyrir hversu lengi til viðbótar þingflokkurinn ætlar að halda uppi einræðum við sjálfan sig.
„Menn hafa fengið að tala fram á morgun og eflaust verður það í einhverja daga í viðbót þannig og svo meta menn bara stöðuna,“ sagði Bjarni Benediktsson fjármálaráðherra um málið.
„Ég hef margoft setið heilu sumrin á þinginu og þegar þær aðstæður skapast verðum við bara að gera það,“ sagði Bjarni ennfremur.