Flugvélin, sem ber skrásetningarnúmerið N18121, var smíðuð í Douglas-flugvélaverksmiðjunum í Kaliforníu fyrir Eastern Airlines-flugfélagið og er hún skráð tilbúin frá verksmiðjunum 25. október 1937. Hún verður því 81 árs og sjö mánaða þegar hún kemur, en búist er við henni til Reykjavíkur milli klukkan fjögur og fimm.
Uppfært kl. 16:35: Áætluð lending í Reykjavík er kl. 17.10, samkvæmt upplýsingum ACE FBO.
Íslenskir flugáhugamenn, sem þekkja vel flugsöguna, eins og Baldur Sveinsson og Pétur P. Johnson, vita ekki til þess að svo gamalli flugvél hafi áður verið flogið til Íslands, og heldur ekki yfir Atlantshaf milli Ameríku og Evrópu.
Rifja má upp að Breitling-þristurinn, sem kom hingað fyrir tveimur árum, var framleiddur árið 1940 og var því 77 ára þegar hann lenti í Reykjavík.
Þýsk Junkers-flugvél, sem kom árið 2012, var framleidd árið 1939 og því 73 ára gömul þegar hún lenti á Íslandi.

Hún var síðan notuð í margskyns atvinnuflugi hjá ýmsum flugfélögum næstu fjóra áratugi allt til ársins 1988. Henni hafði þá verið flogið 91.600 flugtíma og hafði þá sett heimsmet sem sá þristur sem lengst hafði flogið í heiminum. Metið var staðfest af Mc Donnell Douglas-fyrirtækinu.
Flugtími vélarinnar jafngilti því að hún hefði verið samfellt 3.816 daga á lofti, eða í 10 ár og 5 mánuði. Á líftíma sínum hefur hún flogið 16,5 milljónir mílna, sem jafngildir 660 hringferðum um jörðina eða 34 ferðum til tunglsins.
Frá 1993 hefur vélin verið í eigu einkaaðila og hún er enn að bæta heimsmetið.

Hér má sjá frétt Stöðvar 2 um lendingu vélarinnar: