Skammt öfganna á milli
Einar byggir spá sína á gögnum frá Reiknimiðstöð evrópskra veðurstofa, ECMWF. Í spánni segir m.a. að sjór verði allt að 1 til 2 stigum hlýrri en að jafnaði norður og austur af landinu en kaldari sjó er hins vegar spáð að jafnaði suðvestur undan landinu og almennt verður sjór kaldari þvert yfir Atlantshafið. Þetta muni koma til með að hafa áhrif á veðurfar.„Kælir að sumri og veldur frekar skýjum en annars sem og úrkomu í þeim tilvikum þegar loft kemur úr þeirri átt,“ segir Einar.
Þegar litið er til „stöðunnar í háloftunum“, þ.e. lofthringrás umhverfis norðurhvelið, muni mögulega skiptast á ólíkir veðurkaflar. „Skammt verður öfganna á milli, en jafnast út í meðaltalinu.“
Þá eru þrýstifrávik ógreinileg við Ísland, að sögn Einars. Hærri þrýsting suður í höfum og suður af Alaska megi túlka sem óvissu á okkar slóðum, en einnig meiri breytileika í veðurfari og síður einsleitt tíðarfar.
Meðalhiti og -úrkoma í efsta þriðjungi
Um hita á landinu í sumar segir Einar að merkja megi greinilega hlý frávik fyrir norðan og austan, eins og svo oft áður. Óvissa ríkir þó enn um hitann fyrir sunnan.„60-70% líkur á að meðalhiti verði í efsta þriðjungi á hálendinu og innsveitum fyrir norðan og austan. Erfiðara að segja til um hitafrávik sunnanlands.“
Þá má gera ráð fyrir meiri úrkomu á sömu landsvæðum og hlýindin verða mest. Þannig séu 50-60% líkur á markvert meiri rigningu á hálendinu sem og austanlands. Þetta sé sennilega einnig til marks um breytilegt veðurlag í sumar, þar sem engin sérstök vindátt verði ríkjandi.
Íslendingar töldu sig margir svikna af tíðarfari síðasta sumars, einkum íbúar höfuðborgarsvæðisins. Í lok júlí í fyrra hafði mælst mesta úrkoma í Reykjavík fyrstu fjórtán vikur sumarsins síðan mælingar hófust. Þá var sólarleysið á Suðvesturlandi metið óvenjulegt en hlýindi mældust þó yfir meðallagi á Austurlandi, líkt og vænta má í ár.