Á þessum fyrsta veiðidegi eru 257 smábátar komnir með strandveiðileyfi, um tíu prósent færri en á sama tíma í fyrra, en þá voru þeir 284 talsins. Örn Pálsson, framkvæmdastjóri Landssambands smábátaeigenda, segir reynsluna þó sýna að þeim muni fjölga hratt á næstu vikum en í fyrra voru alls 548 bátar sem fengu leyfi til strandveiða. Örn á allt eins von á því að þeir verði fleiri í ár enda sé fiskverð núna hærra og veiðigjöldin lægri.
Þá hefur orðið grundvallarbreyting á fyrirkomulagi strandveiðanna, sem fest var í sessi með lagabreytingum Alþingis, sem tóku gildi í síðasta mánuði. Áður voru þetta einskonar kappveiðar þar sem strandveiðisjómenn ruku af stað í upphafi hvers mánaðar, oft í misjöfnum veðrum, til að ná sem mestum afla áður en pottur hvers veiðisvæðis kláraðist.

Strandveiðarnar hleypa jafnan miklu lífi í sjávarbyggðir hringinn í kringum landið á sumrin en þær eru bundnar við mánuðina maí, júní, júlí og ágúst. Í fyrra var Patreksfjörður í efsta sæti og Bolungarvík í öðru sæti yfir þær hafnir þar sem mestum strandveiðiafla var landað.
Hér má heyra frétt Bylgjunnar: