Norska ríkisútvarpið, NRK, lýsti því yfir á föstudag að opinbert nafn mjaldursins sem norskir sjómenn fundu úti fyrir Finnmörku í síðustu viku og talinn er hafa verið þjálfaður til njósna af Rússum sé Hvaldimir. Hval (borið fram „vall“) þýðir, eins og margir vita, hvalur á norsku en nafnið er líka orðaleikur að nafni Vladímírs Pútín Rússlandsforseta.
Beisli sem Hvaldimir hafði utan um sig þótti benda til þess að mjaldurinn hefði verið þjálfaður af rússneska sjóhernum, mögulega til njósna. Þeirri kenningu er enn haldið á lofti þó að Rússar hafi gefið lítið fyrir hana í samtölum við fjölmiðla undanfarna daga.
NRK kallaði eftir nafnatillögum frá almenningi þegar málið fór að vekja heimsathygli og segir yfir 25 þúsund manns hafa tekið þátt í atkvæðagreiðslu um bestu tillöguna. Yfir 30 prósent völdu nafnið Hvaldimir en VG, vinsælasta dagblað Noregs, var þegar farið að nota það nafn um mjaldurinn sérstaka.
Næst vinsælasta tillagan var nafið Joar, eftir Joar Hesten, sjómanninum sem stakk sér til sunds í hrímköldu Atlantshafinu til þess að losa beisli Hvaldimirs. Agent James Beluga hafnaði þá í þriðja sæti nafnakosningarinnar.

Talinn þjálfaður af Rússum
Hvaldimir er almennt talinn hafa sloppið úr þjálfunarstöð rússneska hersins í Murmansk. Þar eru Rússar taldir þjálfa hvali til sérstakra hernaðaraðgerða, búnir myndavélum og jafnvel vopnum. Rússar hafa þó alfarið neitað þessari kenningu.
Hvalasérfræðingur við háskólann í Tromsø, Audun Rikardsen, segist þó sannfærður um að Hvaldimir komi úr þjálfunarstöð Rússa
„Sú staðreynd að enginn hefur gert tilkall til hvalsins gæti verið merki um það,“ sagði Rikardsen í samtali við NRK.
„Þessi frétt [af hvalafundinum] hefur farið um heiminn, þannig að hún er þekkt um öll sædýrasöfn og meðal þeirra sem vinna með hvali. Þeir sem týndu honum vita alveg að hann dúkkaði upp hér. Þegar enginn stígur fram og segist vilja fá hann til baka, þá er það merki um að þeir hinir sömu vilji kannski ekki draga allt of mikla athygli að málinu.“