NBA-félagið LA Lakers er enn í þjálfaraleit og nú síðast sigldu samningaviðræður félagsins við Tyronn Lue út í sandinn.
Lue hafnaði tilboði Lakers á þriðjudag en Lakers gafst ekki upp og kom með nýtt tilboð í gær. Það skilaði engu og Lue er hættur að ræða við forráðamenn félagsins. Hann vildi fimm ára samning sem var ekki í boði.
Þess utan setti Lakers mikinn þrýsting á að Lue myndi taka Jason Kidd sem aðstoðarþjálfara og það fannst þjálfaranum ekki vera heillandi.
Lue var auðvitað þjálfari LeBron James hjá Cleveland er liðið varð meistari árið 2016. Hermt er að hann hafi verið efstur á lista James um næsta þjálfara liðsins. Lue spilaði einnig með Lakers og var í meistaraliði félagsins árin 2000 og 2001.
Lakers hafði áður reynt að fá Monty Williams, aðstoðarþjálfara Philadelphia, til að taka við liðinu en það gekk ekki heldur upp.
Leit Lakers heldur því áfram.
Gengur ekkert hjá Lakers að fá nýjan þjálfara
Henry Birgir Gunnarsson skrifar
