Jóhann Örn Ásgeirsson, aðstoðarvarðstjóri slökkviliðsins, segir eld hafa logað út um einn glugga og reykur hafi verið út um fleiri þegar viðbragðsaðilar mættu á vettvang og útlitið hafi verið slæmt.
Íbúðin er staðsett fyrir ofan húsasmiðju og var fólk í íbúðinni þegar eldurinn kom upp en slökkviliðsmenn björguðu fjórum mönnum af svölum hússins að því er fram kemur á vef RÚV. Ekki er vitað um meiðsl þeirra að svo stöddu.
Ekki hefur verið náð tökum á eldinum en enn er unnið að því að slökkva hann.
„Þetta lítur betur út en þegar við komum en við erum ekki búin að ná tökum á þessu enn þá,“ segir Jóhann en viðbragðsaðilar hafa ekki enn komist í þau rými sem verst eru farin eftir eldinn.
Uppfært 16:21: Unnið er að því að rjúfa þakið á húsinu.
Uppfært 16:47: Eldur logar enn í húsinu en slökkviliðsmenn eru að ná tökum á eldinum. Töluverð vinna er eftir og verður slökkvistarf hér eftir unnið innan úr húsinu. Nærliggjandi hús eru ekki talin vera í hættu.



