ABC-fréttastofan greinir frá því að hin grunaða heiti Deborah Sue Culwell og sé 54 ára. Hún var handtekin á heimili sínu í Coachella-dalnum í Kaliforníu en gert er ráð fyrir að hún verði ákærð fyrir dýraníð. Þá er haft eftir lögreglu að um þrjátíu hundar hafi verið á heimilinu þegar lögreglu bar að garði. Farið var með þá í dýraathvarf.
Konan náðist á myndband þar sem hún henti hvolpunum sjö, sem allir voru í einum plastpoka, í ruslagám síðastliðinn fimmtudag. Vegfarandi rambaði á hvolpana við gáminn en þeir voru þá aðeins þriggja daga gamlir. Þá töldu yfirvöld að hvolparnir hefðu ekki lifað af langa vist í gáminum en afar heitt hefur verið á svæðinu undanfarna daga.
Í frétt ABC segir að hvolparnir, sem taldir eru blendingar af terríer-kyni, séu nú í höndum dýraverndunarsamtaka.