Íslandsbanki hyggst hætta að gefa börnum gjafavörur úr plasti nú á vormánuðum til að sporna við mengun og sóun, að því er fram kemur í tilkynningu frá bankanum.
Ákvörðunin er tekin í samræmi við heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna sem verið er að innleiða í inn í stefnu Íslandsbanka en á meðal markmiðanna eru aðgerðir í loftslagsmálum.
Þá mun „nýr og umhverfisvænn“ sparibaukur í mynd mörgæsarinnar Georgs líta dagsins ljós og leysa plastbaukinn af hólmi.
„Það hefur enginn farið varhluta af umræðu um plastnotkun og áhrifum þess á umhverfið. Hjá okkur eru tugir þúsunda gjafavara og þar af mest plast. Þessi ákvörðun er í takt við nútímasamfélag þar sem fyrirtæki eiga að huga að umhverfismálum í rekstri sínum,“ er m.a. haft eftir Eddu Hermannsdóttur, markaðs- og samskiptastjóra Íslandsbanka, í tilkynningu.
