Haukur Þrastarson er einn af framtíðarstjörnum handboltans sem gætu skinið skært á Evrópumótinu á næsta ári.
Haukur er yngstur á 20 manna lista sem birtist á heimasíðu EHF í dag. Selfyssingurinn er fæddur 2001 og verður 18 ára 14. apríl.
Í greininni kemur fram að Haukur hafi verið í lykilhlutverki í íslenska U-18 ára landsliðinu sem vann til silfurverðlauna á EM í fyrra og verið valinn besti leikmaður mótsins. Jafnframt segir að Haukur hafi látið til sín taka með Selfossi í EHF-bikarnum og tekið þátt í tveimur leikjum með A-landsliðinu á HM 2019. Þar hafi hann sýnt hversu óttalaus og spennandi leikmaður hann er.
Haukur er í íslenska hópnum sem mætir Norður-Makedóníu í tveimur leikjum í undankeppni EM 2020 síðar í mánuðinum. Hann lék sinn fyrsta landsleik fyrir ári, þá aðeins 16 ára.
Haukur er í 17. sæti listans sem birtist á heimasíðu EHF. Á toppi hans er Magnus Rød sem lék afar vel með norska landsliðinu sem lenti í 2. sæti á HM. Rød leikur með Flensburg, toppliði þýsku úrvalsdeildarinnar. Landi Røds, hinn 18 ára, Alexander Blonz, er í 12. sæti listans. Hann var í norska hópnum á HM og fer til Elverum í sumar.
Í 5. sæti listans er Emil Nielsen sem ver mark Skjern ásamt Björgvini Páli Gústavssyni. Nielsen, sem er 22 ára, er á förum til Nantes eftir tímabilið. Í 7. sætinu er Johan Hansen sem varð heimsmeistari með Dönum í janúar. Hann lék áður með færeyska landsliðinu en ákvað svo að leika með því danska.

