Borgun sagði í lok síðasta árs upp viðskiptasamböndum við seljendur sem ekki rúmast innan nýrrar áhættustefnu kortafyrirtækisins, að því er fram kemur í ársreikningi fyrirtækisins fyrir síðasta ár. Forsvarsmenn Borgunar segjast þannig setja langtímahagsmuni framar skammtímasjónarmiðum og telja að uppsagnirnar muni vera fyrirtækinu til hagsbóta til framtíðar.
Sem kunnugt er gerði Fjármálaeftirlitið á árinu 2017 margvíslegar athugasemdir við eftirlit kortafyrirtækisins með peningaþvætti og fjármögnun hryðjuverka. Krafðist eftirlitið þess meðal annars að Borgun sliti viðskiptasambandi sínu við tíu erlend fyrirtæki vegna þess að fyrirtækið kannaði ekki áreiðanleika upplýsinga um þau með fullnægjandi hætti.
Í skýringum við ársreikning Borgunar fyrir síðasta ár er bent á að síðla árs 2017 hafi viðskiptasamböndum verið sagt upp við töluverðan fjölda seljenda sem seldu þjónustu eingöngu yfir internetið utan heimamarkaða. Ekki hafi verið stofnað til nýrra viðskiptasambanda við slíka seljendur á síðasta ári.
Þá hafi Borgun ákveðið, í samræmi við nýja áhættustefnu sína, að segja upp viðskiptasamböndum sem ekki rúmist innan stefnunnar.
Eins og Markaðurinn hefur greint frá nam tap Borgunar tæplega 1,1 milljarði króna í fyrra. Í ársreikningnum er tekið fram að tapið skýrist fyrst og fremst af hratt minnkandi tekjum af erlendum viðskiptum hjá seljendum sem selja vöru og þjónustu eingöngu yfir internetið.
Auk þess megi rekja lægri hreinar þjónustutekjur til aukins kostnaðar umfram tekjur af innlendri færsluhirðingu sem skýrist aðallega af drætti í innleiðingu á nýjum lögum um lækkun milligjalda. Þá hafi hreinar þjónustutekjur einnig lækkað vegna neikvæðrar framlegðar af stórum erlendum seljanda sem Borgun tók í viðskipti í lok árs 2017.
Hreinar rekstrartekjur Borgunar voru 2.031 milljón króna í fyrra og drógust saman um 52 prósent á milli ára. Rekstrargjöld voru 3.312 milljónir á síðasta ári og lækkuðu um tæp 11 prósent frá fyrra ári.
Íslandsbanki ákvað í byrjun ársins að hefja að nýju söluferli á 63,5 prósenta hlut bankans í Borgun, eins og fram hefur komið í Markaðinum, en alþjóðlega ráðgjafarfyrirtækið Corestar Partners stýrir ferlinu.
Sleit viðskiptum sem rúmast ekki innan áhættustefnu
Kristinn Ingi Jónsson skrifar

Mest lesið

Um 44 prósent hlynnt inngöngu í Evrópusambandið
Viðskipti innlent

Bjartara yfir við opnun markaða
Viðskipti erlent

Gefur reikniformúlu tollgjaldanna falleinkunn
Viðskipti erlent

Truflanir í heimabönkum vegna bilunar hjá Reiknistofu bankanna
Viðskipti innlent

Ráðinn forstöðumaður fyrirtækjasviðs Ormsson
Viðskipti innlent

Greiðslur og rafræn skilríki komin í samt lag
Viðskipti innlent

Leggja til 25 prósent tolla á valdar bandarískar vörur
Viðskipti erlent

Tvö hundruð konur töluðu um orkumál á KÍO-deginum
Viðskipti innlent

Fyrsta íslenska grænkera ostagerðin í hættu
Viðskipti innlent
