Veðurstofan hefur gefið út appelsínugula viðvörun fyrir Suðurland, Suðausturland og Miðhálendið vegna mikils hvassviðris og er viðvörunin í gildi frá seinniparti morgundagsins til hádegis á þriðjudag.
Verstu spár gera ráð fyrir meðalvindhraða yfir 30 m/s við suðurströndina seint annað kvöld en mestar líkur eru á að meðalvindhraðinn verði á bilinu 25 til 28 m/s annað kvöld. Vindur nær stormstyri og verða vindhviður yfir 40 m/s síðdegis á morgun á sunnanverðu landinu.
Á suðausturlandinu verður austan og síðar norðaustan stormur eða rok á bilinu 20 til 28 m/s en allt að 30 m/s í meðalvindhraða seint um kvöldið. Búast má við snörpum vindhviðum við fjöll, yfir 40 m/s, einkum undir Mýrdalsjökli og í Öræfum.
Ekkert ferðaveður er á meðan viðvörunin er í gildi og er fólk hvatt til að sýna aðgát og ganga frá lausamunum til að forðast foktjón.

