Innlent

Hæsti­réttur: Spyr máls­aðila hvort þeir fari fram á að Lands­réttar­dómar verði ó­merktir

Atli Ísleifsson skrifar
Hæstiréttur.
Hæstiréttur. Vísir/Vilhelm

Hæstiréttur hefur í ljósi dóms Mannréttindadómstóls Evrópu sent erindi til málsaðila í öllum málum á dagskrá Hæstaréttar, sem tekin voru fyrir að einhverjum þeirra fjögurra Landsréttardómara sem bætt var á lista dómsmálaráðherra um dómara við réttinn og sem Alþingi samþykkti, og spurt hvort að farið verði fram á að dómurinn í Landsrétti verði ómerktur.

Frá þessu er greint á vef Hæstaréttar. Þar segir að í dag hafi Hæstiréttur beint fyrirspurn til málsaðila í máli Glitnis Holdco gegn Stundinni og Reykjavik Media um einmitt þetta, en Ragnheiður Bragadóttir dæmdi í málinu í Landsrétti.

Verði krafist að dómurinn verði ómerktur „telur Hæstiréttur, í ljósi þess sem opinberlega hefur komið fram um að íslenska ríkið hafi til athugunar að neyta heimildar í 43. gr. fyrrgreinds samnings til að óska eftir að máli nr. 27374/18 verði vísað til yfirdeildar mannréttindadómstólsins, óhjákvæmilegt að fresta munnlegum flutningi máls nr. 29/2018 um óákveðinn tíma þar til endanleg niðurstaða fæst um þetta efni. Verði á hinn bóginn engin slík krafa gerð mun málið koma til munnlegs flutnings á áður boðuðum tíma,“ segir í tilkynningunni.

Ennfremur segir að áfrýjandinn Glitnir Holdco ehf. og stefndu, Stundin ehf. og Reykjavík Media ehf., hafi tilkynnt að þeir muni ekki krefjast þess fyrir Hæstarétti að dómur Landsréttar verði ómerktur af ofangreindum ástæðum.

„Hefur Hæstiréttur því í samræmi við framangreint ákveðið að munnlegur flutningur máls nr. 29/2018 fari fram á áður boðuðum tíma föstudaginn 15. mars nk. Sams konar erindi verður beint til aðila annarra dómsmála fyrir Hæstarétti þar sem eins stendur á um,“ segir á vef Hæstaréttar.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×