Skoðun

Aukum kaupmátt tugþúsunda launamanna

Valgerður Sigurðardóttir skrifar
Borgarstjórnarflokkur Sjálfstæðisflokks kynnti í gær tillögu þar sem áhersla er lögð á að liðka til í kjaraviðræðunum sem fram undan eru. Tillagan verður flutt í borgarstjórn í dag. Einn liður í þessari tillögu fjallar um mikilvægi þess að Reykjavíkurborg eignist Keldnalandið, enda hafa forsvarsmenn verkalýðsfélaganna lagt mikla áherslu á húsnæðismálin, og raunar sagt að ekki verði skrifað undir kjarasamninga nema fyrir liggi skuldbindandi samkomulag um að bæta aðstæður fólks á húsnæðismarkaði.

Þéttingastefna núverandi meirihluta hefur beðið skipbrot enda mjög dýrt að byggja á þéttingarreitum. Til marks um það hefur húsnæðisverð hækkað um 100% á síðustu átta árum. Þannig hefur aukinn kaupmáttur rýrnað í háu húsnæðisverði enda stærri og stærri prósenta af tekjum fólks sem fer beint í að greiða af húsnæði.

Auk þess að byggja nær eingöngu á þéttingarreitum innheimta borgaryfirvöld alls kyns gjöld, m.a. svokölluð innviðagjöld sem leggjast í ofanálag ofan á  allan þann kostnað sem kaupendur fasteigna þurfa á endanum að taka á sig. Það segir sig sjáflt að skortur á nýjum lóðum annars vegar og alls kyns gjöld hins vegar hækka húsnæðisverð. Aukið framboð lóða í Reykjavík fyrir hagkvæmt húsnæði mun því lækka húsnæðisverð og þannig auka kaupmátt tugþúsunda launamanna

Nauðsynlegt er að auka framboð af hagkvæmu íbúðarhúsnæði

Nú blasir sá veruleiki við að íbúðir á þéttingarreitum eru orðnar svo dýrar að það standa hundruð íbúða auðar. Á þessu hafa sveitarfélög í kringum Reykjavík notið góðs af enda  fólksfjölgun fyrir sveitarfélög mjög jákvæð á allan hátt, t.d. tekjulega séð. Þess vegna verða borgaryfirvöld að skipta um gír. Nauðsynlegt er að auka framboð af íbúðarhúsnæði á viðráðanlegu verði. Við verðum að geta verið samkeppnishæf þegar ungt fólk fer út á húsnæðismarkaðinn. Reykjavík á að vera góður valkostur fyrir alla hópa.

Við uppbyggingu borga þarf alltaf að hafa í huga fjölbreytni. Lóðir fyrir fjölbreytta atvinnustarfsemi og  íbúðabyggð þurfa vera tiltækar hjá borginni, bæði á dýrum og ódýrum svæðum. Keldnalandið er því tilvalið til þess að auka framboð lóða. Þar eru gríðarleg tækifæri til mikillar uppbyggingar.

Það flækir hins vegar málið að Keldnalandið er ekki í eigu Reykjavíkurborgar. Þess vegna leggjum við til að borgarstjórn samþykki að semja við ríkið um kaup á Keldnalandinu án skilyrða um aðrar fjárveitingar ríkisins. Jafnframt er lagt til að  borgin hefjist tafarlaust handa við skipulagningu svæðisins fyrir stofnanir, fyrirtæki og heimili. Umhverfis- og skipulagssviði verði falið að leiða skipulagsvinnuna. Enn fremur verði lögð sérstök áhersla á að skipuleggja lóðir fyrir hagstætt húsnæði, sem sárlega vantar í borginni. Þá er jafnframt lagt til að fallið verði frá sérstöku innviðagjöldum. Aðgerðin í heild sinni verði liður í innleggi borgarinnar í kjaraviðræðum.

Samþykki borgarstjórn aðgerðir okkar sjálfstæðismanna verður bæði hægt að tryggja nægt framboð lóða á frábæru byggingarland í höfuðborginni og koma jafnvægi á byggingamarkaðinn. 

Höfundur er borgarfulltrúi Sjálfstæðisflokksins.




Skoðun

Sjá meira


×