Sjá einnig: Afar sérstakt að svo margir smitist af mislingum í einu
Fjögur mislingasmit hafa verið staðfest í íslensku heilbrigðiskerfi síðustu daga en tveir fullorðnir og tvö börn hafa nú verið greind með mislinga.
Börnin tvö eru ellefu og átján mánaða en eldra barnið var á leikskólanum Hnoðraholti í Garðabæ. Tuttugu börnum á leikskólanum, sem eru óbólusett vegna aldurs eða annarra ástæðna, hefur verið skipað að halda sig heima í rúmar tvær vikur.
Ekki við neinn að sakast
Þórdís Jóna Sigurðardóttir, framkvæmdastjóri Hjallastefnunnar, segir að foreldrar barnsins hafi brugðist hárrétt við miðað við upplýsingar sem þeir fengu þegar fyrst var kannað hvort barnið væri smitað.
Þess vegna hafi foreldrarnir metið það svo að óhætt væri að koma með barnið á leikskólann.
„En eðlilega þarf þá að fara í gegnum einhverja ferla með það að það hafi ekki verið gefið út að barnið væri ekki með mislinga. En þau fengu það staðfest að barnið væri ekki með mislinga.“
Fleiri smit ekki staðfest á landinu það sem af er degi
Þórdís segir barnið á batavegi og jafni sig nú heima hjá sér. Þá hafa ekki komið upp fleiri mislingasmit á leikskólanum.„Nei, ekki sem við vitum um.“
Komið hefur fram að smitberinn var farþegi í vél Icelandair sem kom til landsins þann fjórtánda febrúar síðastliðinn og fór áfram til Egilsstaða daginn eftir.
Umdæmislæknir sóttvarna á Austurlandi sendi frá sér tilkynningu vegna málsins gær en þar kemur fram að smitberar hafi farið víða innan Fjarðabyggðar og Fljótsdalshéraðs. Starfsmenn vinna nú að því að finna þá sem helst má reikna með að gætu hafa smitast.
Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir staðfesti við fréttastofu fyrir hádegi að það sem af er degi hefðu ekki verið staðfest fleiri mislingasmit en fyrrnefnd fjögur tilfelli.