Erlent

Vanúatúar vilja banna einnota bleyjur

Atli Ísleifsson skrifar
Einnota bleyjur eru mjög óumhverfisvænar þar sem þær eru flestar fóðraðar plasti sem brotna ekki niður í náttúrunni.
Einnota bleyjur eru mjög óumhverfisvænar þar sem þær eru flestar fóðraðar plasti sem brotna ekki niður í náttúrunni. Getty
Stjórnvöld á eyríkinu Vanúatú í vestanverðu Kyrrahafi vilja banna notkun einnota bleyja. Eru það umhverfissjónarmið sem ráða þar för.

Utanríkisráðherrann Ralph Regenvanu segir að bannið skuli einnig ná til annarra hluta úr plasti, en stór hluti sorps á Vanúatú, líkt og víðast hvar annars staðar, er einmitt notaðar bleyjur.

Vanúatú er eitt af þeim svæðum í Kyrrahafi sem hafa orðið fyrir barðinu á loftslagsbreytingum, en á síðasta ári varð eyríkið eitt það fyrsta í heiminum til að banna notkun plastpoka.

Ríkisstjórn landsins leggur til að bleyjubannið taki gildi þann 1. desember næstkomandi, en þingið á enn eftir að samþykkja frumvarpið.

Einnota bleyjur eru mjög óumhverfisvænar þar sem þær eru flestar fóðraðar plasti sem brotna ekki niður í náttúrunni og innihalda jafnan litlar plastkúlur til að drekkja í sig vökva.

Íbúar Vanúatú eru um 280 þúsund talsins.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×