Körfubolti

Nú verður þetta fyrst vandræðalegt: Dirk útilokar ekki að spila eitt ár í viðbót

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Dirk Nowitzki og Dwyane Wade fengu báðir að spila í Stjörnuleik NBA 2019 þrátt fyrir að hafa ekki verið valdir þangað samkvæmt hefðbundnum leiðum.
Dirk Nowitzki og Dwyane Wade fengu báðir að spila í Stjörnuleik NBA 2019 þrátt fyrir að hafa ekki verið valdir þangað samkvæmt hefðbundnum leiðum. Getty/Streeter Lecka
Dirk Nowitzki hefur fengið ótal hjartnæmar kveðjur og oft verið sýndur mikill virðingarvottur á leikjum sínum í NBA-deildinni í vetur. Það héldu allir að þetta yrði hans síðasta tímabil en það gæti breyst.

Dirk Nowitzki hefur aldrei gefið það út sjálfur að körfuboltaskórnir færu upp á hillu í lok tímabilsins sem er hans 21. í NBA-deildinni. Kveðjustundin verður því kannski bara vorið 2020 en ekki vorið 2019.





Ökklaaðgerðin síðasta vor kom vel út. Dirk missti af byrjun tímabilsins en hann er allur að braggast. Það hlýtur síðan að spila stóra rullu í öllu saman að Dallas Mavericks ætlar að bjóða upp á spennandi tíveyki á næstu leiktíð með þeim Luka Doncic og Kristaps Porzingis.

„Ég myndi elska það að geta verið með þessum ungu strákum eitt ár í viðbót en það fer alveg eftir hvernig líkaminn verður,“ sagði Dirk Nowitzki eftir leikinn í nótt þar sem hann var með 11 stig, 5 fráköst og 3 stoðsendingar á 22 mínútum í 110-101 sigri á Indiana Pacers.

„Það hafa verið smá vandamál. Hnéð bólgnaði aðeins upp á síðustu vikum en mér líður núna betur og er að verða sterkari,“ sagði Dirk.

Í leiknum á undan þá tók Doc Rivers, þjálfari Los Angeles Clippers, leikhlé 9,4 sekúndum fyrir leikslok svo að Dirk Nowitzki gæti fengið heiðursskiptingu. Doc gekk svo langt að hann náði í hljóðnema vallarþularins og bað áhorfendum um að hylla Þjóðverjann.





Það eru svona dramatískar kveðjur að undanförnu sem gætu litið svolítið vandræðalega út fari svo að Dirk Nowitzki spili sitt 22. tímabil í NBA-deildinni.

Slóvenski nýliðinn Luka Doncic hefur slegið í gegn á sínu fyrsta tímabili og þá fékk liðið á dögunum Lettann Kristaps Porzingis í skiptum frá New York Knicks. Kristaps Porzingis er að stíga upp úr hnémeiðslum og er ekki byrjaður að spila með Dallas en það efast enginn um að þar er frábær leikmaður á ferðinni.  

Porzingis er enn ungur (23 ára) og þess 221 sentímetra framherji ætti að geta myndað mjög spennandi tvíeyki með hinum 201 sentímetra Luka Doncic í framtíðinni. Dallas Mavericks hefur verið liðið hans Dirk Nowitzki undanfarna áratugi en er að verða liðið þeirra Doncic og Porzingis.







NBA



Fleiri fréttir

Sjá meira


×