Fréttastofa náði tali af honum fyrir utan höfuðstöðvar Wow air í Katrínartúni í kvöld er Skúli hélt heim á leið eftir langan dag á skrifstofunni. Fundað hefur verið stíft í höfuðstöðvunum í dag þar sem frestur sem skuldabréfaeigendur Wow air gáfu félaginu til að ganga frá samkomulagi við Indigo átti að renna út á miðnætti.
Í kvöld sendi félagið frá sér tilkynningu þess efnis að ekki hafi tekist að ganga endanlega frá samkomulagi við Indigo en að viðræður myndu halda áfram í góðri trú. Vonir stæðu til að hægt væri að ganga endanlega frá fjárfestingu Indigo fyrir 29. mars næstkomandi.
„Ég er alltaf vongóður,” sagði Skúli og bætti við að hann mætti ekki tjá sig um viðræðurnar utan þess sem kom fram í tilkynningunni.
„Að sjálfsögðu,” sagði hann við spurningum um hvort flugvélar fljúgi áfram og hvort fólk fái laun.
Greint var frá því í janúar að gangi kaupin eftir muni bandaríska fjárfestingafélagið eignast 49 prósent hlut í flugfélaginu.