Meðalsölutími styttist verulega utan höfuðborgarsvæðisins
Utan höfuðborgarsvæðisins fór meðalsölutími fasteigna lækkandi á nýliðnu ári líkt og þróunin hefur verið allt frá árinu 2015, bæði í sérbýli og fjölbýli.Það tók til að mynda um 100 daga að selja íbúð í fjölbýli utan höfuðborgarsvæðisins árið 2018 samanborið við um 270 daga árið 2015. Sölutími á höfuðborgarsvæðinu breyttist lítið frá fyrra ári.
Leiguverð hækkaði meira en íbúðaverð og laun
Leiguverð á höfuðborgarsvæðinu hækkaði meira en íbúðaverð milli áranna 2017 og 2018 samkvæmt þinglýstum leigu- og kaupsamningum sem liggja til grundvallar vísitölum sem Þjóðskrá gefur út.Leiguverð hækkaði um 8,3% milli ára á sama tíma og íbúðaverð hækkaði um 6,2% á höfuðborgarsvæðinu. Hagstofa Íslands tekur saman gögn um launaþróun á landsvísu og má sjá að hækkun launa milli ára er áþekk hækkun íbúðaverðs á höfuðborgarsvæðinu eða 6,5%
Þá eru um 7.000 íbúðir í byggingu hér á landi um þessar mundir samkvæmt nýjustu upplýsingum. Af þessum 7.000 íbúðum er verið að byggja ríflega 5.000 íbúðir á höfuðborgarsvæðinu. Næst á eftir höfuðborgarsvæðinu eru flestar íbúðir í byggingu á Suðurnesjum eða um 634 talsins.
Hlutfallslega flestar íbúðir eru í byggingu á suðvesturhorninu og fæstar á Vestfjörðum.
1,5 milljarður í 267 íbúðir
Alls var 1,5 milljörðum króna úthlutað úr ríkissjóði til fjármögnunar á 267 leiguíbúðum fyrir tekju- og eignaminni leigjendur eða aðra félagshópa í síðari úthlutun ársins 2018. Alls hefur stofnframlögum verið úthlutað sex sinnum frá 2016 til 2018, samtals um 9 milljörðum króna, til uppbyggingar eða kaupa á tæplega 1.700 íbúðum.Markmið með veitingu stofnframlaga er að bæta húsnæðisöryggi efnaminni fjölskyldna og einstaklinga með því að auka aðgengi að öruggu og viðeigandi íbúðarhúsnæði til leigu, að því er segir í skýrslu íbúðalánasjóðs.