Þetta kemur fram í tilkynningu frá utanríkisráðuneytinu og segir að upphæðin sé til viðbótar tuttugu milljóna króna framlagi sem var ráðstafað til hjálpar flóttafólki frá Venesúela í samstarfi við SOS-Barnaþorp í lok janúar.
Einnig segir að Guðlaugur Þór Þórðarson utanríkisráðherra hafi fyrr í dag rætt við Juan Guaidó, forseta þjóðþings Venesúela, og greint honum frá stuðningi ríkisstjórnar Íslands við hann sem forseta til bráðabirgða og framlagi Íslands til mannúðaraðstoðar.
„Við ræddum almennt um stöðuna í Venesúela og mikilvægi þess að alþjóðasamfélagið beiti sér áfram fyrir frjálsum og friðsamlegum kosningum í Venesúela. Það var gott að geta greint frá fjárhagsstuðningi okkar við flóttafólk frá Venesúela, enda þörfin brýn,“ er haft eftir Guðlaugi Þór.

Ræddi við Venesúelamenn búsetta á Íslandi
Í tilkynningunni segir að Guðlaugur Þór og Guaidó hafi einnig rætt áframhaldandi friðsæl mótmæli í Venesúela og aðgerðir stjórnar Nicolasar Maduro, sem meðal annars hafi komið í veg fyrir að mannúðaraðstoð berist þeim sem á þurfa að halda.„Áður hafði Guðlaugur Þór rætt við Oswaldo Perez og Maríu Carolinu Osorio frá Venesúela en þau eru búsett er hér á landi. Þau höfðu sína sögu að segja um hvernig ástandið hefur hríðversnað í Venesúela. Hitabeltissjúkdómar sem ekki hafa sést í landinu láta nú á sér kræla og vannæring og lyfjaskortur veldur aukinni tíðni dauðsfalla bæði meðal barna og fullorðinna.
